You are here

Umskráning

Umskráning (decoding) er hæfileikinn til að breyta bókstöfum orða í viðeigandi málhljóð, tengja þau saman til að mynda orð og finna merkingu þess. Við stafsetningu er málhljóðum breytt í bókstafi og orð til að lesa (Goulandris, 2006).

Umskráning er afar mikilvæg því allir aðrir grunnþættir lestrar byggja á henni. Nái börn ekki góðri umskráningarfærni mun það bitna á lesfimi þeirra, takmarka orðaforðaöflun og koma niður á lesskilningi þeirra (Otaiba, Kosanovich, Torgesen, 2012).

Umskráningarfærnin þróast með stigbundnum hætti og þurfa kennarar að vera afar meðvitaðir um þá þróun til að finna hvar nemendur eru staddir, hvar hefja skuli kennsluna og til að fylgjast með framförum þeirra. Hér fyrir neðan má sjá upptalningu á helstu umskráningarþáttum í þeirri röð sem þeir þróast:

• Þekkir bókstaf út frá hljóði hans (getur bent á bókstafinn eða skrifað hann)

• Þekkir hljóð út frá bókstaf (umskráning)

• Skrifar stafi út frá hljóði til að stafsetja orð

• Tengir saman hljóð til að umskrá orð

• Les algeng orð með sjálfvirkum hætti, sjónorð t.d. og, ekki.

• Hljóðar sig í gegnum stutt orð

• Umskráir tvíhljóð og samhljóðasambönd (sj-, kr-, o.s.frv.)

• Les reglubundin eins atkvæða-orð

• Stafsetur reglubundin eins atkvæða-orð

• Stafsetur flest orð sem hann getur lesið út frá hljóðaaðferð

• Ber kennsl á/les  orðbúta og endingar til að þekkja orð?

• Stafsetur rétt algeng orð miðað við aldur

• Les samsett orð, úrfellingar eða brottföll hljóða, þ.e. aðlagar rithátt orða að framburði við lestur (t.d. orðin ganga og nafn)

• Les marg-atkvæða orð

• Notar merkingu og setningaskipan til að staðfesta rétta umskráningu

• Stafsetur mörg orð út frá reglum um  rithátt

• Les texta eftir áherslum og efni í samræmi við talmál

                                               (Þýtt og staðfært úr Walpoe og McKenna, 2007:52).

Eftir því sem nemendur færast ofar í skólakerfinu verður krafan meiri um að þeir geti umskráð erfið og löng orð án fyrirhafnar, jafnvel orð sem þeir skilja ekki og hafa aldrei séð áður á prenti. Nemendur meða slaka umskráningarfærni ná oft ekki nægjanlegum lesskilningi vegna erfiðleika við að umskrá og um leið að tileinka sér helstu lykilorð lesefnis. Það væri t.d. mjög erfitt fyrir nemanda að skilja eftirfarandi texta ef hann gæti ekki umskráð nokkur helstu lykilorð hans (sjá undirstrikuðu og skáletruðu orðin):

Dýr í eyðimörkum  jarðarkringlunnar hafa þróað með sér ýmis konar sérkennileg  varnarkerfi til að aðlagast þurru loftslagi og yfirþyrmandi sandstormum sem skella á fyrirvaralaust.

Margir nemendur með umskráningarerfiðleika eiga erfitt með að lesa marg-atkvæða orð. Ein ástæða þess er að þeir hafa ekki sjálfvirka þekkingu á orðbútunum sem þessi orð eru yfirleitt sett saman úr (t.d. –um í eyðimörkum  -unnar og -ar í jarðkringlunnar, sér- og  -leg í sérkennileg, -ar í varnarkerfi, að- og  -ast í aðlagast, -lagi í loftslagi, yfir- og -andi í yfirþyrmandi og fyrir- , -vara-, -laust og -st í fyrirvaralaust) ( Brownell, Smith,Crockett og Griffin, 2012). Þá þarf að bregðast við með því að kenna nemendum að skipta orðum í lesbúta og lesa hvern bút fyrir sig og tengja saman (Ehri og Wilce, 1983; Ehri 2005). Sjá nánar um kennslu umskráningar hér á vefnum. 

  © Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer