You are here

Lesskilningur

Lesskilningur er afar flókið ferli sem felur í sér fjölþætta, hugræna úrvinnslu. Ótalmargir áhrifaþættir koma þar við sögu. Þess vegna geta margar ólíkar en jafnframt samverkandi ástæður legið fyrir því að börn lendi í erfiðleikum með lesskilning.  Mönnum hefur reynst erfitt að skilgreina lesskilning því ekki er aðeins um að ræða mismunandi stig skilnings heldur byggir lesskilningur á hugrænni úrvinnslu og rökhugsun sem háð er þjálfun, ögun og þeim efnivið sem unnið er með hverju sinni. Þess vegna þarf skilgreining á lesskilningi að endurspegla úrvinnsluna ekki síður en afrakstur skilningsins (Kamhi, 2012).

Flestar skilgreiningar horfa aðeins til úrvinnslu lesskilnings. Til dæmis skilgreinir rannsóknarhópur um þroska og læsi (RRSG, 2000) lesskilning sem: „ ferli sem byggir á samhangandi úrvinnslu merkingar í gagnkvæmu samspili og í nánum tengslum við ritmál“. Samkvæmt Snow (2010) var þessari skilgreiningu ætlað að beina athyglinni að þremur lykilþáttum tengdum lesskilningi:

  • Nákvæmum lestri (umskráningu).
  • Ferli sem tengir ályktanir og upplýsingar ekki aðeins við sjálfan textann.  Með öðrum orðum, að upplýsingarnar felist ekki eingöngu í textanum.
  • Virkum og einbeittum lesanda.

Lesskilningur er gjarnan mjög breytilegur vegna þess að hann er undir áhrifum af lestrarfærni (umskráningarfærni) lesandans, þáttöku hans í að umbreyta ritmáli í merkingu, sem bæði tengist textanum og þeim verkefnunum sem lesandanum er ætlað að vinna, svo og því samhengi þar sem lesturinn á sér stað (Kamhi, 2012). Rannsóknir sem skoðað hafa þá hugrænu og málrænu úrvinnslu sem á sér stað við lesskilning hafa varpað ljósi á þrjá meginþætti sem ráða úrslitum um góða virkni í lesskilningsferlinu:

  • Lestrarfærni lesandans;
    • lesandinn þarf að geta umskráð orð og lesið texta af fullkomnu öryggi, samtímis því sem hann þarf að geta  skilið orð, hugtök og þá orðræðu sem notuð er í textanum
  • Eiginleikum textans;
    • Læsileiki textans. Hversu vel og skipulega efnið er sett fram. Hvort auðvelt er að geina meginefnið og áherslur höfundar.
  • Verkefnunum sem meta lesskilning. Hvað merkir að skilja einfalda setningu?

Frávik í einum þessara þátta getur leitt til vanda í lesskilningi (Snow, 2010). Snow telur að áskoranir við lesskilning feli að stærstum huta í sér erfiðleika við að skilgreina hvar lesskilningur byrjar og hvar hann endar. Þessi vandi á sér ekki aðeins stað við langa texta né heldur hvort um ræðir sögutexta eða fræðilega texta, heldur felst vandinn allt eins í að skilja einfalda setningu sem finna má í lesefni fyrstubekkinga.

Allir eru sammála um að markmið bekkjarkennara, sérkennara, foreldra og annarra sem koma að námi barna og unglinga skuli beinast að því að kenna börnum að skilja það sem lesið er. Fyrsta skrefið í átt að því markmiði er að átta sig á að börn og ungmenni eru misvel undirbúin til að skilja hinn óendanlega fjölbreytileika ritmálsins og vinna með þá ólíku texta sem nám í leik, grunn- og framhaldsskóla leggur þeim á herðar.

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer