You are here

Hljóðavitund

Hljóðavitund er þróaðasti hluti hljóðkerfisvitundar

Hljóðræn úrvinnsla (einnig kallað hljóðkerfisúrvinnsla) vísar til hugrænnar starfsemi sem byggir á hljóðkerfi tungumála og gegnir mikilvægu hlutverki við tal og lestur. Hún samanstendur af eftirtöldum þáttum:

                                         

                                                                                                                                                             (Troia, 2004)

Hljóðkerfisúrvinnsla tungumálsins fer oftast fram með ómeðvituðum og sjálfvirkum hætti við hlustun og tal. Hlutverk hennar er að draga fram merkingu þess sem sagt er til að stuðla að góðum og óhindruðum samtölum á milli fólks, en ekki að vekja athygli á málhljóðum orðanna. Hljóðkerfisvitund er sá undirþáttur hljóðkerfisúrvinnslunnar sem er í aðallhlutverki við lestur og lestrarnám þótt aðrir þættir hennar komi einnig við sögu (Ehri, 2004; Rath, 2001; Troia, 2004).  

Hljóðkerfisvitund (phonological awareness) er næmi fyrir hljóðuppbyggingu tungumálsins og hæfni til að íhuga og vinna með misstórar hljóðeiningar orðanna, oft án tengsla við merkingu þeirra (Snow, Burns og Griffin, 1998; Stanovich, 1988; Torgesen, 1996).

Eins og kemur fram í skilgreiningunni þá vísar hljóðkerfisvitund annars vegar til meðvitundar fyrir uppbyggingu orðanna, þ.e. misstórum hljóðeiningum þeirra og hins vegar til hæfninnar til að vinna með þær á mismunandi vegu. Hljóðkerfisvitund er stigskipt færni sem talin er þróast frá stærri einingum til hinna smærri, sjá mynd hér að neðan.

                                         

Eins og sést á myndinni þá er hljóðavitund þróaðasti undirþáttur hljóðkerfisvitundar. Hún er skilgreind af Snow, Burns og Griffin (1998:52) sem:

Næmi eða vitund um að hvert einstakt orð er samsett úr röð hljóða sem táknuð eru með bókstöfum. Vegna þess að bókstafirnir standa fyrir hljóð tungumálsins er vitundin um hljóðin lykilatriði til að skilja reglur stafrófsins og mikilvægur grunnur að hæfni til að ná tökum á umskráningu og stafsetningu.           

Hljóðavitund er sá undirþáttur hljóðkerfisvitundarinnar sem  hefur mest tengsl við lestur og stafsetningu. Þetta er mikilvæg staðreynd sem byggir á traustum rannsóknargrunni.

Hljóðavitund er forsenda þess að skilja tengsl bókstafa og hljóða og geta lesið úr bókstafstáknunum

Tungumál sem byggja á stafrófskerfi, líkt og íslenskan, byggja á hljóðkerfi þar sem hver bókstafur (eða stafaklasar/stafasambönd) stendur fyrir ákveðið málhljóð. Þeir sem geta greint að stök hljóð orðanna, vita hvaða hljóð hver bókstafur stendur fyrir og geta tengt hljóðin saman hafa öðlast þekkingu og skilning á því hvernig nota á stafrófskerfi tungumálsins til að lesa (Liberman, Shankweiler, & Liberman, 1989; Troia, 2004,).  Nemendur með slaka hljóðavitund geta átt í miklum erfiðleikum með að læra heiti og hljóð bókstafinna þar sem að hljóðavitundin er ,,límið“ sem festir bókstafsheitin og hljóð þeirra í minninu. Þess vegna er mikilvægt að þjálfa hljóðavitund samhliða kennslu á bókstöfum og hljóðum og við að umskrá (bæði að tengja saman og stafsetja) í upphafi lestrarnámsins (Ehri, 1998, 2002). Rannsóknir sýna með óyggjandi hætti að þjálfun sem lýtur að því að gera nemendur meðvitaðri um málhljóðin dregur úr lestrar- og stafsetningarvanda (Adams, Foorman, Lundberg, & Beeler, 1998; Gillon, 2004; NICHD, 2000; Rath, 2001).

Hljóðavitund spáir fyrir um árangur í lestri og stafsetningu

Athugun á hljóðavitund barna áður en lestrarnám hefst gefur sterkar vísbendingar um gengi barna í lestri tveimur til þremur árum síðar (Good, Simmons, and Kame'enui, 2001; Torgesen, 1998, 2004). Gildi þessarar vitneskju liggur í því að hægt er að kortleggja styrk- og veikleika nemenda í upphafi lestrarnámsins og hefja kennslu í samræmi við stöðu þeirra. Hljóðavitund gegnir þannig lykilhlutverki í snemmtækri íhlutun í lestri. Snemmtæk íhlutun er einkum mikilvæg fyrir nemendur sem greinast með slaka hljóðavitund og eiga því á hættu að lenda í erfiðleikum með lestur. Um leið og vandinn er ljós er hægt  að byrja markvissa íhlutun til að auka möguleika þeirra á að ná jafnöldrum og draga úr alvarlegum afleiðingum lestrarörðugleika (NELP, 2008;Torgesen, 2001, 2005). 

© Helga Sigurmundsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer