You are here

Einkenni

Eins og fram kemur í skilgreiningu á lesblindu (dyslexíu) birtast helstu einkenni hennar í hægum og oft og tíðum ónákvæmum lestri ( umskráningu), ásamt erfiðleikum í stafsetningu.  Lesblinda er vandi við úrvinnslu málhljóða sem rekja má til veikleika í hljóðkerfisþætti tungumálsins. Vísbendingar um hljóðkerfisvandann má greina hjá leikskólabörnum löngu áður en formlegt lestrarnám hefst (Höien og Lundberg, 1991). Hér á landi er prófið Hljóm-2 notað til að finna þau börn sem eru í áhættu í þeim tilgangi að setja inn inngrip og markvissa þjálfun (Amalía Björnsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2004). Rannsóknir hafa leitt í ljós að með því að bregðast við vandanum með snemmtækri íhlutun má koma í veg fyrir eða draga verulega úr alvarlegum afleiðingum lesblindu (Lundberg, Frost og Petersen, 1988, Torgesen, 2001). Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að einkenni lesblindu birtast í slakri umskráningu, en öllu jöfnu eru nemendur með lesblindu góðir í skilningi (hlustunarskilningi/leskilningi). Þó er ákveðinn hópur nemenda sem hefur bæði veikleika í umskráningu og skilningi (sjá á mynd, blandaður hópur). Vandi hans er því  alvarlegri en hinna þar sem veikleikar birtast í báðum meginþáttum lestrar.

Frá unga aldri hafa börn næmi fyrir hljóðum tungumálsins sem þau nýta sér til að aðgreina merkingu orða (t.d. hús - mús).  Þau eru þó ekki ennþá fær um að greina á milli stakra hljóða né meðvituð um að orð eru sett saman úr stökum hljóðum. Þessi vitund um hljóðræna uppbyggingu tungumálsins, hljóðkerfisvitund/hljóðavitund verður smám saman meðvitaðri og auðvelt er að vinna með hana til að búa börn undir lestrarnámið. Ef um veikleika í hljóðkerfisvitund er að ræða getur slík þjálfun haft úrslitaáhrif á gengi barnanna í lestrarnáminu (Carroll, Bowyer-Crane, Duff, Hulme og Snowling, 2011). 

Veikleikar í hljóðkerfisvitund birtast í erfiðleikum við að:

ríma,

sundurgreina hljóð í orðum (t.d. að gera sér grein fyrir því að orðið mús er samansett úr hljóðunum /m//ú//s/),

tengja saman hljóð til að mynda orð (t.d. að tengja hljóðin /m//ú//s/ til að lesa orðið mús)

vinna með hljóð tungumálsins með mismunandi hætti, t.d. að setja hljóðið /h/ í stað /m/ í orðinu mús og breyta því í orðið hús (Brownell, Smith, Crokett, Griffin, 2012).

Helstu einkenni lesblindu (dyslexíu) sem birtist í lestri

  • að vera lengi að læra bókstafi og hljóð þeirra
  • erfiðleikar við að vinna með tengsl stafa og hljóða
  • ónákvæmur/hikandi lestur
  • hægur leshraði (lítil sjálfvirkni)
  • vera lengi að byggja upp sjónrænan orðaforða
  • lítil lesfimi

Erfiðleikar við umskráningu koma sterkt fram í stafsetningu og eru erfiðari viðureignar og lengur að hverfa en lestrarvandinn. Sumir kalla þetta skrifblindu en í raun eiga vandamál í lestri og stafsetningu rætur að rekja til sömu grunnveikleika í hljóðkerfi tungumálsins. Með aldrinum, aukinni kennslu og þjálfun breytast einkennin og lesturinn verður þjálli og áheyrilegri þótt oft vanti talsvert á lesfimi (sjá skilgreiningu) miðað við jafnaldra. Stafsetning getur einnig batnað til muna þó að oft megi sjá einkenni dyslexíunnar þar áfram.

Helstu einkenni dyslexíu í stafsetningu

  • brottfall stafa
  • að eiga erfitt með að greina stutt og langt sérhljóð (einfaldan/tvöfaldan samhljóða)
  • að eiga erfitt með að greina mun á hörðum og linum samhljóðum
  • að rugla saman hljómlíkum stöfum (grannir og breiðir sérhljóðar, b/d, f/v, n/m o. fl. )
  • stafavíxl

Helstu einkenni í tungumálanámi

  • að vera lengur en jafnaldrar að tileinka sér hljóðkerfi nýrra tungumála
  • stundum erfiðleikar með framburð
  • hægur fyrirhafnasamur lestur
  • að vera lengi að byggja upp sjónrænan orðaforða
  • erfiðleikar við stafsetningu og ritun

 

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer