You are here

Lesblinda - dyslexia

Skilgreining á dyslexíu

Eftirfarandi skilgreining var samþykkt af nefnd á vegum Alþjóðlegu dyslexíusamtakanna (International Dyslexia Association/ IDA) 12. nóvember 2002, en IDA eru samtök fræðimanna og áhugafólks um dyslexíu. Bandaríska barnaheilbrigðisstofnunin (The National Institute of Child Health and Human Development/ NICHD/ www.nimh.nih.gov) byggir meðal annars á þessari skilgreiningu.
 
Dyslexía er sértækur námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna. Einkennin birtast í erfiðleikum með nákvæman, sjálfvirkan lestur og slakri færni í stafsetningu og umskráningu. Erfiðleikana má í flestum tilfellum rekja til vanda við úrvinnslu málhljóða sem er ekki í samræmi við aðra vitsmunalega hæfni einstaklingsins og koma fram þrátt fyrir vandaða lestrarkennslu. Dyslexía getur leitt til erfiðleika með lesskilning og ónógrar lestrarreynslu, sem aftur getur komið niður á þróun orðaforða og öflun þekkingar í gegnum lestur.
 
(http://www.interdys.org/, Lyon, Shaywitz & Shaywitz, 2003)

 

Skilgreiningin er leiðbeinandi fyrir fræðimenn, rannsakendur og kennara og er mikið notuð í dag (Catts, Kamhi og Adlof, 2012).

Dyslexía birtist óháð greind (Siegel, 1992; Stanovich, 1994) kynþætti og þjóðfélagsstöðu (Vellutino o.fl., 2005; Snowling, 2006). Dyslexía getur verið misalvarleg og stundum eru til staðar aðrir taugafræðilegir veikleikar samhliða henni sem auka á námserfiðleikana (Höien og Lundberg, 2000; Snowling, 2006; Deponio, 2004). Með góðri kennslu og þjálfun geta flestir einstaklingar með dyslexíu náð  viðunandi tökum á lestri, en oft verða stafsetningarerfiðleikar viðvarandi (Torgesen, 2001, 2004).

Tíðni

Tíðni dyslexíu (lesblindu) fer eftir þeim viðmiðunum sem sett eru við tíðnirannsóknir hverju sinni. Á vef alþjóðlegu dyslexíusamtakanna (International Dyslexia Association) er talið að tíðni lestrarerfiðleika sé á bilinu 15 - 20 % og að 85% þeirra séu með dyslexíu. Höien og Lundberg (2000) álykta að tíðni dyslexíu sé í kringum 10 % . Athuganir Rannveigar G. Lund og Ástu Lárusdóttur (2004) á 14 ára unglingum sýna að 13 % nemenda hafa slaka umskráningarfærni (dyslexía er erfiðleikar við umskráningu). Hafa þarf í huga að hér var um skimunarpróf að ræða og þar sem GRP-14h er nákvæmt próf má búast við að það finni heldur fleiri en hægt er að staðfesta með einstaklingsgreiningu.

Kynjamunur

Eldri rannsóknir sem gerðar hafa verið á mismunandi tíðni lestrarerfiðleika meðal drengja og stúlkna sýndu að lestrarerfiðleikar voru mun algengari meðal drengja (,1970; Goldberg & Schiffman, 1972; Thomson, 1984). Rannsókn Naidoo (1972) sýndi hlutföllin 5:1 og Rutter, Tizard & Whitmore (1970) hlutföllin 3,3:1. Niðurstöður nýrri langtímarannsókna hafa hins vegar ekki sýnt sambærilegan mun á milli kynja (Prior, Sanson, Smart & Oberklaid, 1995 og Shaywitz, Shaywitz, Fletcher & Escobar, 1990) og benda þær til að það séu jafnmargar stúlkur og drengir sem glími við lestrarerfiðleika. Þessi mikli munur á ofangreindum niðurstöðum er rakinn til mismunandi viðmiða/skilgreininga við greiningu og flokkun á nemendum með lestrarerfiðleika. Shaywitz o.fl. (1990) bentu á að drengir væru virkari, hefðu minna úthald og trufluðu meira kennslustundir en stúlkur. Nemendur sem eru slakir í lestri og með hegðunar- og einbeitingarvanda eru líklegri til að vera sendir í lestrargreiningu en þeir sem eingöngu eiga í erfiðleikum með lestur. Þegar eingöngu er stuðst við mælikvarða á lestrargetu við samanburð kynjanna virðist tíðni lestrarerfiðleika álíka meðal drengja og stúlkna (Catts og Kamhi, 2005; Berninger o. fl., 2007).

Ein nýjasta rannsókn á þessu sviði (Berninger o.fl., 2007), þar sem þátttakendur voru bæði börn og fullorðnir sýndi engan mun á getu stúlkna og drengja á lestrarprófum. Hins vegar kom í ljós að drengir og fullorðnir karlmenn stóðu verr að vígi í skrift og ritun en stúlkur og fullorðnar konur. Karlarnir áttu jafnframt í meiri erfiðleikum með stafsetningu, nákvæmni og leshraða en konurnar.

 

  Nánari útskýringar á skilgreiningu IDA     Um misræmiskenningar     Sögulegt yfirlit

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer