You are here

Heimalestur

Lestur byggist á stigskiptri þróun sem hefst á því að börn lesa einfalda texta sem þyngjast smátt og smátt upp í flókið og sérhæft námsefni sem gerir miklar kröfur til lesskilnings.

Grunnurinn að þessari mikilvægu færni er lagður strax í upphafi lestrarnámsins en börn þurfa að lesa jafnt og þétt til að ráða við stigþyngjandi lesefni.

Ef brestir verða í þjálfuninni er hætta á að viðunandi árangur náist ekki.

Mikilvægt er að börn lesi heima daglega ef mögulegt er. Þótt börn lesi í skólanum er það ekki í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að þau fái nægilega þjálfun. Þess vegna er heimalestur afar mikilvægur.

Börn sem eiga auðvelt með að læra að lesa fara fljótlega að lesa af sjálfsdáðum og þeim fer oftast hratt fram, þótt alltaf þurfi að vera á varðbergi og fylgjast með að þjálfun falli ekki niður. Börn sem eiga í erfiðleikum reyna síður að lesa sjálf og þurfa mikla hvatningu og aðstoð.

Hvernig er hægt að efla lestrarfærni barna ?

  • Reynið að skapa reglu og gott andrúmsloft í kringum heimalesturinn strax í upphafi skólans þannig að lesturinn geti orðið ánægjuleg samverustund.
  • Skoðið bókina með barninu og beinið athygli þess að umgjörð bókarinnar, heiti hennar, myndum, sögupersónum o.fl. til að komast inn í efni sögunnar og vekja áhuga á því.
  • Látið barnið fylgja línum eftir með fingri um leið og það les.
  • Rifjið upp stafi og hljóð sem barnið hikar við og fylgist með að það þekki örugglega alla stafina því það er grunnur að góðri lestækni.
  • Gott er að spyrja leiðandi spurninga til að fá barnið til að giska á innihald sögunnar og tjá sig um það t.d. um atburði, framvindu, fyrirætlan, hugarástand og líðan sögupersónanna.
  • Fáið barnið til að segja frá efni sögunnar, ræðið efni textans og látið reyna á ályktunarhæfni þess.
  • Hrósið barninu fyrir það sem gengur vel til að uppörva það og hvetja.
  • Reynið að vera þolinmóð og jákvæð og láta barnið ekki heyra ef þið eruð áhyggjufull, talið við kennara ef lestrarnámið gengur ekki nægilega vel.

© Helga Sigurmundsdóttir

Hljóðupptaka: 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer