You are here

Þróun stafsetningar

Þróun stafsetningar hjá börnum

Stafsetningarreglur í bókum eru lýsing fullorðinna málfræðinga á samkomulagi um stafsetningu, þær eru ekki lýsing á þeim reglum sem barnið lærir þegar það lærir stafsetningu móðurmálsins. Barnið lærir stafsetningu á allt annan hátt. Þau læra ritmálið á sama hátt og talmálið, með því að tileinka sér rithátt tungumálsins (e. orthography) eða rithefðir smám saman og læra af fyrirmyndum. Þess vegna tölum við ekki um stafsetningarnám heldur um stafsetningartöku (e. spelling acquisition) eða ritmálstöku, eins og máltöku.

Í þessu ferli býr barnið sér til eigin reglur sem það prófar, líkt og börn gera í máltökunni, endurskoðar og leiðréttir. Svokallaðar „stafsetningarvillur“ eru til marks um hvar barnið er statt í ferlinu og eru yfirleitt eðlilegar. Fyrstu árin getur stafsetning barna verið býsna fjarlæg hefðbundinni stafsetningu en það breytist hratt og um 9 ára aldur eru mörg börn farin að skrifa tiltölulega rétt í samræmi við framburð. Eftir að 10 ára aldri er náð má búast við að ritháttur margra sé nokkurn veginn í samræmi við framburð og villur séu eingöngu bundnar við þau atriði sem skýrð eru í kennslubókum með „stafsetningarreglum“.

Með því að fylgjast með hvernig börn ná tökum á stafsetningu móðurmáls síns er unnt að greina ákveðin skref á þeirri braut sem líka má orða sem svo að þau nái tökum á ákveðnum reglum eða þáttum í stafsetningu (Nunes, Bryant og Bindman, 1997). Fyrir íslensku væri eðlilegt að gera ráð fyrir fimm stigum (Baldur Sigurðsson og Steingrímur Þórðarson, 1987).

Forstig stafsetningar, forstig eða krotstig (e. prephonetic or scrabble stage)

Barn krotar eða rissar tákn sem líkjast að einhverju leyti stöfum eða ritmáli tilsýndar. Oft er ekki ljóst hvort barnið er að skrifa eða teikna. Barnið hefur áhuga á stöfum og skrift og reynir að líkja eftir þeim. Barnið skrifar stafi sem því líst vel á og les það orð sem það langar til, til dæmis nafnið sitt eða nöfn ættingja án þess að tengja stafina við framburð.

Á þessu stigi hefjast kynni barnsins af stafrófinu og þeim stöfum sem notaðir eru í tungumálinu. Snemma kemur í ljós hvað börn taka vel eftir því stafakrot dregur dám af því ritmáli sem það sér. Þau eru með öðrum orðum strax farin að tileinka sér rithefð tungumálsins (Tolchinsky, 2006; Treiman, 2006)

Til að styrkja þroska barnsins á þessu stigi er mikilvægt að vekja athygli barnsins á stöfum í umhverfinu, gefa því færi á að skrifa og sýna kroti þess áhuga. Gott er að tala um hvað stafirnir heita eða hvað þeir „segja“. Segulstafir á ísskápnum eru dæmi um gott hjálpartæki á þessu stigi.

Fyrsta stig stafsetningar, framburðarstig (e. phonetic stage)

Barn uppgötvar að bókstafir eru einhvers konar skráning málhljóða eða orða. Í upphafi þessa stigs áttar barn sig á að það sjálft á sérstakan staf. Það lærir að aðrir eiga líka staf og að stafur hvers og eins stendur í einhverju samhengi við framburð eða heiti stafsins og framburð nafnsins. Smám saman lærist framburður fleiri stafa og barnið fer að geta skrifað orð þannig að ritháttur minnir á framburð þess og verður loks í samræmi við framburð. Á þessu stigi hefur barnið óljósar hugmyndir um muninn á heiti stafsins og hljóðinu sem stafurinn segir. Barninu finnst því ekki óeðlilegt að skrifa ‚Hdegi‘, fyrir ‚hádegi‘,‚sSa‘ fyrir ‚sessa‘ og „mn“ fyrir „menn“. Þessi ritháttur telst fullkomlega hljóðréttur miðað við þroska barnsins.

Hugmynd barnsins um hljóð tungumálsins ræðst af þeim framburði sem það elst upp við og hefur sjálft. Fullkomlega eðlilegt er að barnið skrifi eftir algengum framburði. Ef barnið er vant að heyra talað um ‚Reygígínga‘ og ‚Kedlígínga‘, finnst því eðlilegt að skrifa þessi íbúaheiti svona og ekki er víst að það tengi þau við ‚Reykjavík‘ og ‚Keflavík‘ (Baldur Sigurðsson og Steingrímur Þórðarson, 1987).

Til að styrkja þroska barnsins á þessu stigi er mikilvægt að gefa gaum að framburði, reyna að tala hægt og skýrt við barnið og rækta framburð þess. Ef vart verður við óeðlilegan framburð eða framburðargalla er mikilvægt að leita til sérfræðinga.

Annað stig stafsetningar, almennt rithefðarstig (e. ortographic stage)

Barn uppgötvar að orðin eru ekki alltaf skrifuð eins og þau eru borin fram, heldur virðast einhverjar venjur eða hefðir búa að baki. Á þessu stigi áttar það sig á hvaða stafir og stafasambönd koma fyrir í ritmálinu og smám saman líta orðin út eins og íslenska, jafnvel þótt þau séu ekki rétt skrifuð samkvæmt reglum sem lærast á síðari stigum. Þær hefðir sem barnið lærir á almennu rithefðarstigi eru almennar og reglubundnar, til dæmis 'é' fyrir 'je', grannan sérhljóða fyrir breiðan á undan 'ng' og 'nk' og 'hv-' í spurnarorðum þótt sagt sé 'kv-'.

Rithefðir eiga sér ýmsar skýringar sem ekki er auðvelt að koma auga á fyrir barn. Barnið reynir því að tileinka sér þessar hefðir með því að gera sér sínar eigin reglur. Almennar rithefðir í íslensku má flokka í þrennt:

1.     Ritháttur ákveðinna hljóða og hljóðasambanda. Dæmi:

· Tvíhljóð: Stafirnir ‚á‘ og ‚ó‘ tákna hljóð sem skrifa má ‚aú‘ og ‚oú‘ en stafirnir ‚au‘ tákna hljóðið ‚öí‘.

·  Tveir stafir, sama hljóð: Stafirnir ‚y‘ og ‚i‘ tákna sama i-hljóðið.

·  Lokhljóð á eftir s: spá en ekki sbá, hestur en ekki hesdur.

·  Lokhljóð milli sérhljóða: api en ekki abi, úti en ekki údi.

·  Hljóðin bl/dl eru skrifuð fl og rl: kefli og varla.

2.     Ritun orða í einu lagi eða sundur slitin. Dæmi:

· Ritmálið skiptist í aðskilin orð sem þekkja má af því hvert orð fær áherslu á fyrsta atkvæði.

· Hljóð falla brott og orð renna saman, samlagast eða breytast í samfelldu tali en haldast í stafsetningu: settu hana upp í þig (settana uppíðig), fimm orð en aðeins tvær áherslur.

3.     Ritun upphafsstafa. Dæmi:

·  Upphafsstafur í sérnöfnum og upphafi málsgreina: Óskar óskar sér. Óskar Óskar sér? og Örn sá örn. Sá Örn örn?

Hinar almennu rithefðir tungumálsins þroskast með barninu mjög snemma og reikna má með að flest börn hafi náð góðum tökum á almennri rithefð fyrir tólf ára aldur. Ritun algengra og auðskilinna orða lærist fyrr en ritun sjaldgæfra orða og torskilinna síðar. Ef barnið þekkir ekki orðið er líklegra að það grípi til að skrifa eftir framburði (Baldur Sigurðsson og Steingrímur Þórðarson, 1987; Duncan og Seymour, 2000).

Til að styrkja þroska barnsins á þessu stigi er mikilvægt að barnið fái tækifæri til að umgangast ritmál á hverjum degi, lesi og glími við að skrifa. Þannig kynnist það rithefðum málsins og reglurnar síast inn. Foreldrar og kennarar geta hvatt barnið til að lesa með ýmsum ráðum, lesið fyrir barnið, útvegað góðar bækur, sýnt lesefni barnsins áhuga og hjálpað því að skrifa.

Þriðja stig stafsetningar, orðhlutastig (e. morphological stage)

Barn uppgötvar að orð eru gerð úr orðhlutum og þessir orðhlutar eru óbreyttir eða lítt breyttir í stafsetningu fjölda orða þrátt fyrir mismunandi framburð (dæmi: vatnvatn+s, rign+arign+di, dag+urdeg+i). Það kemur auga á að merking orðs hefur áhrif á stafsetningu þess og stafsetning orða líkist ef þau merkja hið sama, eða svipað, jafnvel þótt framburður sé ólíkur.

Á þessu stigi fer orðaforði barnsins og málskilningur að skipta meginmáli fyrir farsæla þróun stafsetningar. Sá eiginleiki stafsetningar að varðveita merkingartengsl orða, þrátt fyrir breytilegan framburð, er talinn stuðla að því að auðvelda lesskilning og auka leshraða. Þessi eiginleiki er stundum kenndur við „uppruna“, en sú nafngift er villandi. Hér er fyrst og fremst um að ræða að stafsetning varðveitir innri merkingartengsl orða og orðhluta.

Barnið áttar sig á gerð orða og orðhluta sem lýsa má í fjórum þrepum:

  1. Orð úr orðum. Unnt er að setja stutt orð saman í löng orð, stundum með einhverjum tengingum eða breytingum. Dæmi: skóli+taskaàskólataska, fótur+boltiàfótbolti
  2. Orð af orði. Unnt er að mynda eitt orð af öðru, stundum með einhverjum viðbótum eða breytingum. Dæmi: veltaàveltingur, bókàbæklingur, þekkturàóþekktur.
  3. Orð og beyging. Sama orð hefur ólíkar beygingarmyndir en heldur samt alltaf sama stofninum. Dæmi: hest+ur, hest+s; holl+ur, holl+t; rign+a, rign+di,
  4. Beyging tengir orð. Mörg orð fá sömu endingar og barnið veltir fyrir sér hvað þau eiga sameiginlegt. Smám saman setur barnið þessar endingar í samhengi við orðflokka og beygingar sem hjálpar því að setja réttar endingar á orð. Dæmi: boltinn – hann, taskan – hún.

Á þessu stigi áttar barnið sig á ritun einfaldra og tvöfalldra samhljóða (holur-holt, hollur-hollt) og að ritun ‚y/ý/ey‘ tengist orðum með kringdu sérhljóði (u/ú/au/jú/jó). Af þeim sökum skrifa börn gjarnan ‚y‘ í orðum sem hafa ‚ö/jö‘ í stofni, t.d. ‚?kylir‘ af ‚kjölur‘. Á þessu stigi verður ritun barna í stórum dráttum rétt samkvæmt reglum.

Á leikskólaaldri er barnið farið að velta fyrir sér merkingu orða og skyldleika og nýtir þá vitneskju snemma í stafsetningu (Bryant, Deacon og Nunes, 2006; Bryant og Nunes, 2006, bls. 10-11; Treiman og Cassar, 1996, bls. 158-159). Það býr til ný orð sem það þarf á að halda og leggur eigin skilning í merkingu þekktra orða. Um þetta kunna uppalendur margar gamansögur.

Pæling í merkingu og skyldleika orða er undirstaða málskilnings. Hún heldur áfram í ritmálinu og fer í stafsetningunni að snúast um orðhlutana, tilgang þeirra og merkingu og þá er talað um lesskilning. Innsæi barna í þetta samræmi orðaforðans og mikilvægi orðhlutanna kemur ekki af sjálfu sér hjá öllum við það eitt að lesa og skrifa, hér skiptir stuðningur foreldra og kennara máli.

Til að styrkja þroska barnsins á þessu stigi er mikilvægt að fylgjast vel með spurningum og vangaveltum barnsins um tungumálið og merkingu orðanna, ekki síst eins og þær birtast þegar barnið spyr um stafsetningu. Miklu skiptir að gefa sér tíma til að ræða merkingu orða og skyldleika þeirra. Til dæmis má útskýra að gyllti sé ekki sama og gilti. Annað er sögnin að gylla, sem þýðir að setja gullhúð yfir. Hitt orðið er þátíð af sögninni að gilda. Það skýrir mismunandi rithátt. Kennari með töflu að vopni hefur mikla möguleika til að skýra samhengi orðaforðans með kerfisbundinni uppsetningu á töflu með aðstoð bekkjarins.

Fjórðar stig stafsetningar, setningarstig eða samhengisstig (e. syntactic stage)

Barn uppgötvar að staða orðs í setningu eða innan málsgreinar getur haft áhrif á rithátt. Sömuleiðis áttar barnið sig á að samhengi í textanum í heild getur gefið mikilvægar vísbendingar um merkingu orðs og getur nýtt sér þá vitneskju í stafsetningu.

Í íslensku hefur setningarlegt samhengi áhrif á beygingu allra beygjanlegra orða, nafnorða, lýsingarorða, fornafna, töluorða og sagna. Algengasta atriði stafsetningar í þessum flokki er ritun n/nn í endingum nafnorða og lýsingarorða þar sem fjöldi n-a ræðst af fallstjórn eða kyni annars orðs.

· Fall nafnorða: Þráinn sá Kristin eða Kristinn sá Þráin.

· Kyn lýsingarorða: Stúlkan er fyndin en pilturinn er ekki fyndinn.

· Kyn lýsingarháttar: Maturinn er borinn fram. Súpan er borin fram.

Hér skiptir máli að átta sig á hvaða orð eiga saman eða hafa áhrif á beygingu.

Í víðara samhengi getur orðalag eða vísbendingar í texta sagt til um rithátt:

· Börnin sáu þegar valurinn hremmdi ungann. (Hér er átt við val, fuglstegund, ekki heiti á manni eða íþróttafélagi, og því með litlum staf).

· Sólin gyllti fjöllin í vestri. (Hvað er átt við? Er líklegt að /gilti/ sé þátíð af sögninni gilda eða gylla.

Villur, sem rekja má til þess að barn áttar sig ekki á setningarlegu samhengi eða merkingu, eru algengar langt fram eftir aldri. Villur eru tíðari í sjaldgæfum orðum en algengum og tíðari í flóknum setningum en einföldum þar sem erfiðara er að átta sig á tengslum orða.

Undirstaða málþroska á þessu stigi er að barnið kynnist ritmálinu og þeim fjölbreyttu og flóknum málsgreinum sem ritmálið hefur umfram talmálið. Bækur við hæfi barna eru iðulega skrifaðar á svo einföldu máli að ekki er víst að barn fái nauðsynleg tækifæri til að spreyta sig á að skilja margbreytilega og flókna orðaröð. Til að styrkja setningarvitund er gott að lesa fyrir barnið bókmenntir sem það mundi ekki ráða við sjálft eða eru við hæfi fullorðinna og velta fyrir sér merkingu setninga og mismunandi möguleikum til að segja hið sama, breyta orðaröð eða skipta um orð og leika sér með mismunandi útgáfur af líkum setningum.

Fimmta stig stafsetningar: Sértækt rithefðarstig (e. lexical stage eða abstract orthographic stage)

Barn uppgötvar að í ritmálinu gilda ýmsar sérstækar reglur sem ekki er unnt að ráða af neinum reglulegum tengslum framburðar og stafsetningar eða samhengi í setningu. Þegar ekki er unnt að beita almennum reglum um tengsl framburðar og stafsetningar eða styðjast við innra samræmi orðaforðans má segja að stafsetningin velti á því hvert orðið er. Barnið þarf því að vita ýmislegt um orðið sjálft eða þekkja rithátt þess sérstaklega.

Sértækar rithefðir má flokka í þrennt, líkt og hinar almennu rithefðir:

1.     Ritháttur ákveðinna hljóða og hljóðasambanda þar sem framburður vísar óskýrt. Dæmi:

· Ritun y/i í orðum þar sem langsótt virðist að beita reglu um skylt orð. Dæmi: peysa, skrýtinn, leyti/leiti, lýst/líst, birgðir, birgir, byrgi

· Ritun ýmissa hljóða eða hljóðasambanda þar sem reglan er of langsótt fyrir barnið eða það getur ekki beitt henni. Dæmi: einkun/einkunn,     framm/fram.

· Ritun samhljóða sem heyrast óskýrt á samskeytum samsettra orða: íbúða(r)hús, nám(s)skrá.

· Ritun rr/r í beygingu fornafna: annarra/þessara.

· Ritun orða af erlendum uppruna sem ekki fylgja almennum íslenskum hljóðkerfisreglum: symfonia, jazz, bridge, mayonnaise (má skrifa: sinfónía, djass, brids, majónes).

2.     Ritun orða í einu lagi eða sundur slitin þegar áhersla vísar óskýrt. Dæmi:

· Samsett orð þegar aukaáhersla fellur á síðari lið: Framsóknar flokkurinn, hvíta sunna, páska dagur, kennara háskóli

· Aðskilin smáorð sem renna saman í framburði með einni áherslu. Dæmi: útaf/út af, einsog/eins og, tilþessað/til þess að, nokkurskonar/nokkurs konar

3.     Ritun upphafsstafa í nöfnum á mörkum sérnafna og samnafna. Dæmi:

· Þjóðaheiti eða ættbálkaheiti: Íslendingar, Evrópumenn og Ísraelsmenn, en indíánar, mongólar og gyðingar

· Félagsmenn og fylgismenn: Valsmaður, KR-ingur og Oddaverji, en framsóknarmaður, maóisti og marxisti.

· Hátíðir og tegundir: Margrétarmessa og Þorláksmessa, en maríustakkur og óðinshani.

· Nafn stofnana, deilda, nefnda og ráða í opinberri stjórnsýslu og víðar sem áhöld eru um: Hæstirétttur, Forsætisráðuneyti, Hugvísindasvið, Foreldrafélag, en héraðsdómur, tollstjóri, guðfræðideild og foreldraráð.

· Orð sem geta verið ýmist sérnöfn eða samnöfn eftir samhengi: Sundhöll/sundhöll, Aðalnámskrá/aðalnámskrá

Í þessum flokki er mikið um flókin atriði og vafamál sem fjallað er um í stafsetningarreglum kennslubókanna en lærast seint til hlítar. Í þessum flokki er hin eiginlega óregla íslenskrar stafsetningar sem fólk á öllum aldri þarf að geta flett upp í orðabók.

Til að ná tökum á síðasta stigi stafsetningar þarf barnið að gera sér grein fyrir ýmsum vísbendingum um rithátt sem standa utan tungumálsins sjálfs. Það þarf að geta velt fyrir sér mörkum sérnafna og samnafna, muni á þjóðflokki og ættbálki, félagsmönnum og fylgismönnum, orðflokkum og eiginleikum þeirra, samsetningum orða og mörkum stofns og endingar. Á þessu stigi lærir barnið að beita eigin dómgreind gagnvart tungumálinu, það lærir að stundum þarf maður sjálfur að taka afstöðu.

Þótt þróun í töku ritmáls (stafsetningar) sé hér lýst í stigum er ekki svo að börn þroskist af einu stigi á annað, heldur eru þau á hverjum tíma á fleiri en einu stigi. Stigin eru hins vegar nokkurn veginn í þeirri röð sem hér er lýst, sjá mynd 1.

 

 

 

 

 

Mynd 1. Þróun stafsetningarkunnáttu í fimm stigum.

Skipting milli stiga er mjög misjöfn eftir einstaklingum en er hér áætluð miðað við barn um eða yfir meðallagi í þroska.

 

© Baldur Sigurðsson

 

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer