Orsakir sértækra lesskilningserfiðleika má rekja til undirliggjandi veikleika í málþáttum lesandans, og þá einkum til þátta er tengjast þekkingu og færni í málfræði, setningafræði og orðaforða. Vandinn felst ekki svo mjög í erfiðleikum við að meðtaka upplýsingar í texta heldur tengist hann fremur ófullkominni þekkingu og slakri færni við meðferð upplýsinganna til að ná að skilja efnið. Þannig eiga nemendur með sértæka lesskilningserfiðleika í sérstökum vandræðum með að beita ályktunarhæfni við að byggja brú milli allra þeirra örsmáu, hárfínu merkingarlegu eininga textans sem aftur gera lesandanum kleift að skilja djúpum skilningi og öðlast heildarsýn á efni textans (Snowling og Hulme, 2012).
Á undanförnum árum hafa verið gerðar yfirgripsmiklar rannsóknir á þróun lesskilningsfærni, en erfiðara hefur reynst að setja niðurstöðurnar í fullkomið merkingarbært samhengi sem nýst getur í kennslu. Þarna koma ótal áhrifaþættir við sögu og því er ekki einfalt að kortleggja alla þá flóku hugrænu starfsemi sem lesskilningur byggir á. Þar af leiðandi geta ýmsar ólíkar en jafnframt samverkandi ástæður legið fyrir því að börn lendi í erfiðleikum með lesskilning (Adlof, Perfetti og Catts, 2011).
Allir eru sammála um að markmið bekkjarkennara, sérkennara, foreldra og annarra sem koma að námi barna og unglinga skuli beinast að því að kenna börnum að skilja það sem lesið er. Fyrsta skrefið í átt að því markmiði er að átta sig á að börn og ungmenni eru misvel undirbúin til að skilja hinn óendanlega fjölbreytileika ritmálsins og vinna með þá ólíku texta sem nám í leik, grunn- og framhaldsskóla leggur þeim á herðar.
© Steinunn Torfadóttir