Sértækir lesskilningserfiðleikar birtast í víðtækum vanda með málræna þætti svo sem málfræði, skilning á uppbyggingu setninga, auk þess sem orðaforði er oft áberandi slakur. Börn með sértæka lesskilningserfiðleika upplifa jafnframt margs konar vanda við úrvinnslu texta, sérstaklega með að draga ályktanir (Snowling og Hulme, 2012).
Hvorki talað mál né ritað endurspeglar fullkomlega hugsun þess sem talar eða skrifar. Lesandinn eða sá sem hlustar (hlustunarskilningur) fyllir inn í eyðurnar með ályktunarhæfni sinni og byggir þannig brú á milli setninga og málsgreina. Djúpur skilningur krefst þess að lesandinn (eða hlustandinn) fylgi flæði textans og fylli inn í eyðurnar með því að draga ályktanir um það sem ekki er sagt berum orðum í textanum. En til þess að það takist þarf lesandinn að hafa góða þekkingu á uppbyggingu ritmálsins og hvernig texti myndar samfellt flæði eða samloðum oft með hjálp ákveðinna tengiorða. Lesandinn þarf því bæði að hafa þekkingu á málfræði og setningafræði, en einnig þarf hann að hafa góða þekkingu á orðaforða ritmálsins. Eftirfarandi textabrot gefur innsýn inn í hvernig lesandinn þarf bæði að hafa haldgóða þekkingu á ritmálinu, ekki síst orðaforða og orðatiltækjum, en einnig þarf hann að beita ályktunarhæfni til að geta gert sér í hugarlund um hvað þessi saga fjallar. Ef mynd fylgdi þessu textabroti myndi hún eyðileggja möguleika lesandans til að þjálfa aðferðir við ályktunarhæfni og setja sér efnið fyrir hugskotssjónir.
Nanna fór í fjallgöngu með mömmu og pabba. Veðrið var narpurt og þokuslæðingur lá yfir fjallahringnum. Þau áðu við stóran stein hátt uppi við klettabeltið og snæddu nestið. Nanna lék sér að því að klifra upp á neðstu steinana. "Gættu þín á blautu steinunum," kallaði pabbi, "þeir eru flughálir." Eftir að hafa snætt nestið hölluðu mamma og pabbi sér í mjúkan mosann. Þeim rann í brjóst, en snögglega hrökk mamma upp við skerandi óp. Nanna, var þetta hún sem var að hrópa? Þykk þoka hafði á augabragði lagst yfir fjallshlíðina. Sem betur fer var pabbi með síma og gat hringt eftir aðstoð. Tveimur klukkustundum síðar var Nanna komin á sjúkrahús.
Takið eftir að höfundurinn lætur það eftir lesandanum að gera sér í hugarlund hvað þarna hefur gerst. Hæfni til að setja sér fyrir hugskotssjónir byggir meðal annars á ályktunarhæfni og bakgrunnsþekkingu sem saman mynda mikilvægan grunn að þeirri færni sem gerir lesandinn kleift að njóta þess að lesa. Þannig er ályktunarhæfni meðal annars mikilvæg til að ná að tengja saman setningar og málsgreinar og mynda samhengi milli eininga textans (micro structure). Hér þarf jafnframt að hafa í huga að lesandinn þarf að byggja upp heildarmynd (macro structure) úr öllum litlu einingunum og því þarf hann að ná að halda einbeitingu sinni við lesturinn, oft og tíðum í gegnum langa texta því heildarmyndin er í stöðugu breytingaferli á meðan lesið er, jafnvel alveg til lokaorðs (Kintsch og Rawson, 2005).
Rannsakendur hafa kortlagt lestrarerfiðleika út frá „einfalda lestrarlíkaninu“ the simple view of reading (Hoover og Gough, 1990), þar sem aðgreindir eru styrkleikar og veikleikar í skilningi og umskráningu (Catts, Adlof og Weismer, 2006). Takið eftir að rannsakendur beita hlustunarskilningi þegar mat er lagt á lesskilninginn, en þá eru börnin látin hlusta á lesinn texta við athugun á skilningi. Það er gert til þess að koma í veg fyrir að umskráning hafi áhrif á báðum ásum. Segja má að vandi í lesskilningi sé andstæður þeim vanda sem nemendur með lesblindu (dyslexíu) glíma við. Þannig eiga nemendur með lesblindu í erfiðleikum með hljóðkerfisúrvinnslu á meðan hljóðkerfisúrvinnsla er öllu jöfnu eðlileg hjá nemendum með sértæka lesskilningserfiðleika. Andstætt þessu eiga nemendur með sértæka lesskilningserfiðleika í viðtækum vanda með málræna þætti sem liggja utan við hljóðkerfisþáttinn (Snowling og Hulme, 2011). Loks er sá hópur nemenda sem á í erfiðleikum með báða þætti, bæði hljóðkerfisúrvinnslu og málskilning (Catts og Kamhi, 2005; Catts, Adlof og Weismer, 2006).
© Steinunn Torfadóttir
Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer