You are here

Orðaforði

Orðaforði er það safn orða sem einstaklingur hefur á valdi sínu. Honum má skipta í virkan orðaforða og óvirkan. Virkur orðaforði er mun minni en óvirkur og inniheldur þau orð sem notuð eru að jafnaði í daglegu máli. Óvirkur orðaforði nær aftur á móti yfir þau orð sem sjaldnar eru notuð en viðkomandi skilur þegar hann heyrir þau eða les (Kamil og Hiebert, 2005).

Góður orðskilningur er grundvöllur lesskilnings. Samkvæmt rannsóknum þurfa nemendur að þekkja 98% orða í textum námsbóka til þess að geta skilið og tileinkað sér innihald þeirra án aðstoðar. Fari þetta hlutfall niður í 95% þurfa flestir nemendur einhverskonar aðstoð til þess að skilja innihaldið, eins og til dæmis orðabækur eða hjálp frá kennara eða samnemendum (Laufer & Ravenhorst-Kalovski, 2010).

Einstaklingsmunur á umfangi orðaforða kemur snemma fram og er líklegur til þess að aukast þegar líða tekur á skólagönguna. Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru eflaust margbreytilegar, en ein sem oft er nefnd er sú að mikill munur er á því málumhverfi sem börn alast upp í. Orðaforði barna sem hljóta mikla málörvun heima fyrir, til dæmis með samtölum við fullorðna eða sameiginlegan lestur, þróast mun fyrr en þeirra sem ekki njóta slíkrar hvatningar (Sénéchal, 1997). Áframhaldandi vöxtur orðaforða byggist að miklu leyti á þeim grunni sem þegar er til staðar og geta framangreind áhrif því verið mikil og langvarandi (Penno, Wilkinson og More, 2002). Börn með takmarkaðan orðaforða hafa til dæmis rýrari skilyrði til þess að tileinka sér orðnámsaðferðir en börn sem hafa ríkan orðaforða og þau eiga erfiðara með að nýta sér merkingarlegt samhengi, hvort sem er í ræðu eða riti. Ný orð bætast því mun hægar í safnið hjá þeim en börnum sem eru með góðan málskilning fyrir.

Af ofansögðu má vera ljóst að þau börn sem hefja skólagöngu með góðan orðaforða hafa forskot sem öðrum börnum með veikari málrænan grunn reynist erfitt að ná upp. Það hlýtur því að skipta miklu máli að bregðast við sem fyrst og gera tilraun til þess að auka hæfni barna til þess að tileinka sér ný orð. Flestar þær aðferðir sem miða að því að auka orðaforða ungra barna felast í því að fullorðnir lesa fyrir þau sögur og ræða merkingu einstakra lykilorða. Slíkar aðferðir hafa gefið góða raun og leitt til greinilegrar aukningar á orðskilningi, ekki síst hjá þeim börnum sem standa höllum fæti (sjá t.d. Penno og fél., 2002; Sénéchal, 1997). Þeim má skipta í þrjú megin skref:

1. Að velja orð sem á að kenna

Mikilvægt er að huga vel að því hvaða orð á kenna og ræða um. Þau mega ekki vera of erfið eða óalgeng, en heldur ekki orð sem allir þekkja. Oft eru valin orð sem birtast reglulega í ritmáli en sjaldnar í daglegu tali. Þau tilheyra svo kölluðu millilagi orðaforðans. Mikilvægt er að flest börn skilji hugtakið sem liggur að baki orðinu sem kennslan snýst um og þekki jafnvel samheiti þess eða önnur skyld orð. Það auðveldar útskýringar á merkingu orðsins til muna.

2. Kynna orðið og útskýra merkingu þess

Þessi hluti orðnámsins er oft samtvinnaður lestrarstund. Þá er bók sem inniheldur lykilorðið lesin og merking þess útskýrð og rædd ýmist á meðan lestri stendur, eftir að honum lýkur eða hvorutveggja. Kennari útskýrir orðið oftast með einfaldri skilgreiningu, nefnir dæmi um and- eða samheiti og ræðir hvernig hægt væri að nota orðið í öðru samhengi. Börnin eru svo oft sjálf beðin um að gera slíkt hið sama.

3. Merking orðsins fest í sessi:

Mikilvægt er að gefa börnunum fjölbreytt tækifæri til þess að nota orðið í mismunandi samhengi og aðstæðum, en á þann hátt festist merking þess best í sessi. Því er oft sniðugt að velja orð sem tengjast öðru starfi sem börnin taka þátt í, eins og til dæmis þemaverkefnum. Einnig eru hlutverkaleikir og annað skapandi starf gjarnan notað í þessum tilgangi.

© Freyja Birgisdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer