Enginn þáttur í hugrænni færni ungra barna hefur verið jafn mikið rannsakaður og lestur og lestrarerfiðleikar, enda leggja rannsakendur áherslu á að lestur sé ein flóknasta hugræna aðgerð sem börn þurfa að ná tökum á í lífinu (Hulme og Snowling, 2009). Segja má að allt fram á níunda áratug síðustu aldar hafi athygli rannsakenda einkum beinst að kennsluaðferðum og því sem kennarar gerðu í kennslustofunni fremur en að því sem fram fór í hugarheimi barnanna. Á undanförnum tveimur til þremur áratugum hafa rannsakendur hins vegar lagt megináherslu á að skoða þá hugrænu starfsemi sem fram fer við lestrarnám og hvaða viðfangsefni það eru sem best efla þá færni sem börn þurfa að ná tökum á til að verða læs. Slíkar rannsóknir hafa leitt til gífurlegra framfara í lestrarkennslu, ekki síst í kennslu barna með lestrarerfiðleika.
Í kjölfar framangreindra rannsókna er nú lögð áhersla á að ekki nægi að beita einni kennsluaðferð í lestrarkennslu (NRP, 2000), heldur beinist áherslan að því að vinna skuli með alla þá fimm meginþætti sem lestrarfærnin byggir á (Stuart, Steinthorp og Snowling, 2009). Þessir fimm þættir eru: hljóðkerfisvitund, umskráning, lesfimi, orðaforði og lesskilningur. Rannsakendur leggja áherslu á að beita skuli sérstökum kennsluaðferðum við hvern þessara þátta (helst raunprófuðum aðferðum) til að tryggja sem best þjálfun og mótun þeirrar hugrænu færni sem hver þáttur krefst. Þannig þarf að kortleggja markvisst hvaða þátt verið er að þjálfa hverju sinni og velja kennsluaðferð og verkefni við hæfi með hliðsjón af styrk- og veikleikum barnanna í hverjum þessara þátta (Carroll, M. J., Bower-Crane, C., Duff, F. J., Hulme, C. og Snowling, M. J. 2011; Kamhi og Catts, 2012)
© Steinunn Torfadóttir
Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer