Hvað er stafsetning?
Stafsetning (e: spelling) á oftast við það að skrifa orð hins talaða máls með bókstöfum og stafmerkjum samkvæmt ákveðnum reglum, sem kallaðar eru stafsetningarreglur eða ritreglur, og finna má í kennslubókum og handbókum (Dóra Hafsteinsdóttir, 2006, ). Í þeim skilningi er unnt að meta stafsetningu ýmist rétta eða ranga eftir því hvort orðin eru skrifuð samkvæmt þessum reglum eða ekki. Í rauninni eru stafsetningarreglur samkomulag um það hvernig við skrifum niður það sem við segjum. Annað orð fyrir stafsetningu í þessari merkingu er réttritun.
Stafsetning getur einnig merkt rithátt tungumáls eða ritvenjur, óháð reglum (e. orthography). Í þeim skilningi merkir stafsetning þann hátt, hefð eða venju, sem skapast hefur í tilteknu málsamfélagi um að stafsetja eða skrifa orð hins talaða máls með ákveðnu kerfi bókstafa, sem kallað er stafróf, og stafmerkjum. Þessar hefðir geta verið breytilegar eftir tímabilum, mállýskusvæðum, einstaklingum eða lærdómi skrifara. Hin skráða gerð tungumáls er kölluð ritmál en það hugtak felur einnig í sér ýmis önnur einkenni hins ritaða máls, orðaval og setningaskipan, sem eru frábrugðin hinu talaða máli.