Stafsetning verður til
Stafsetning tungumála heimsins hefur þróast frá því byrjað var að skrá hið talaða mál (Crystal, 1987, bls. 194 o.áfr.). Frá fyrstu tíð þróast tvenns konar aðferð við að skrifa, myndir sem tákn fyrir merkingu, og stafir eða önnur tákn fyrir hljóð hins talaða máls. Upphaf þess stafrófs sem við þekkjum er rakið til Fönikíumanna, sem voru mikil siglingaþjóð fyrir botni Miðjarðarhafs. Elstu minjar um notkun þess eru frá elleftu öld fyrir Krist. Notkun stafrófs breiddist út til nálægra landa og aðlöguð hverju tungumáli eftir þörfum. Gríska stafrófið varð fyrirmynd hins latneska sem síðar breiddist út um Evrópu og til Norðurlanda með kristninni. Þar leysti það af hólmi rúnastafrófið sem notað hafði verið í nokkrar aldir og má enn finna í áletrunum um öll Norðurlönd. Latneska stafrófið var aðlagað þörfum evrópskra tungumála með því bæta við stöfum (t.d. y, z, þ), búa til límingarstafi úr tveimur stöfum (t.d. æ, ß, w), eða breyta stöfunum með stafmerkjum (t.d. á, ä, å, ó, ö, ø). Fæstir stafir eru notaðir í finnsku (22) en einna flestir í íslensku (32) og portúgölsku (38), og eru þá merktir stafir meðtaldir (Everson, 1993).
Almenn skoðun er að stafsetning sé skráning talmálsins og reglulega spretta upp í öllum málsamfélögum umræður um hvers vegna stafsetning sé ekki í meira samræmi við framburð. Þetta er framburðarsjónarmiðið, að stafsetning eigi að vera sem nákvæmust skráning talmálsins, en á stafsetningu eru fleiri hliðar. Fá ritmál -- ef nokkur -- eru fullkomin skráning talmálsins. Einna næst því kemst finnska, þar sem samsvörun hljóðs og stafs er nálægt því að vera 1:1. Einna fjærst því er enska þar sem samsvörun hljóðs og stafs er mjög óregluleg (Seymour, Aro og Erskine, 2003).
Fátítt er að stafsetningu rótgróinna ritmála hafi verið breytt svo að nokkru nemi eftir aldamótin 1900, en algengara er að ritháttur þróist í stuttum skrefum, líkt og bandarísk enska hefur þróast frá breskum rithætti. Einna þekktustu breytingar á stafsetningu rótgróinna ritmála í okkar heimshluta voru gerðar árið 1918 á rússnesku og árið 1996 á þýsku.