You are here

Ritun

Ritun snýst um það að miðla upplýsingum. Við skrifum til að skiptast á skoðunum, segja frá, fræða, og halda utan um upplýsingar svo fátt eitt sé nefnt. Framsetning textans fer eftir tilganginum hverju sinni og stór hluti af því að ná tökum á ritun er að læra að nota ritmál á fjölbreyttan hátt í mismunandi tilgangi. Færni í ritun byggir því ekki eingöngu á færni í umskráningu heldur þarf einstaklingurinn einnig að þekkja til mismunandi textategunda, hafa tök á því máli sem ritað er á og vera fær um það að setja sig í spor lesandans til að geta miðlað hugmyndum sínum á nægilega skýran hátt.

Börn byrja ung að átta sig á mismunandi textategundum og strax á leikskólaaldri eru þau farin að greina á milli textategunda eins og frásagna og upplýsingatexta og geta beitt þeim í talmáli (Duke & Kays, 1998; Pappas, 1991). Rannsóknir á ritun ungra barna sýna einnig að jafnvel áður en börn ná tökum á táknkerfi ritmálsins nota þau mismunandi uppsetningu eftir því hvernig texta þau eru að líkja eftir (Zecker, 1999). Það tekur börn hins vegar langan tíma að ná góðum tökum á textaritun. Færni þeirra er í örri þróun á grunnskólaárunum og það er almennt ekki fyrr en á unglings- eða fullorðinsaldri sem fullri færni í ritun samfellds texta er náð.

Rannsóknum ber saman um það að frásagnir séu sú textagerð sem börn ná fyrst tökum á að skrifa (Donovan, 2001; Kamberelis, 1999). Hluti af skýringunni á því er eflaust sú að frásagnir hafa tiltölulega einfalt form. Þær hafa til dæmis ákveðna tímalínu sem sögumaður fylgir í gegnum frásögnina og fjalla um ákveðnar persónur og afmörkuð  verkefni. Annað sem getur haft áhrif er að börn hafa almennt meiri reynslu af frásögnum en öðrum textategundum (Duke, 2000). Flestar bækur fyrir börn eru sögubækur og í daglegum umræðum við börn er líka mun oftar notað form sem svipar til frásagna en annarra textategunda. Í skólunum er einnig mest unnið með frásagnir í yngstu bekkjunum, lestrarkennsla fer mestmegis fram í gegnum lestur sögutexta og ritunaræfingar barna eru nær undantekningarlaust ritun frásagna.

Íhlutunarrannsóknir þar sem leikskólabörn og börn í yngstu bekkjum grunnskóla hafa fengið markvissa kennslu og þjálfun í mismunandi textategundum sýna að markviss kennsla um mismunandi textategundir og þjálfun í að nota þær flýtir fyrir framförum í ritun (Purcell-Gates, Duke, & Martineau, 2007; Williams, Hall, Lauer, Stafford, & DeSisto, 2005; Wollman-Bonilla, 2000). Góð kennsla í einni textategund yfirfærist hins vegar ekki að fullu á aðrar textategundir. Íhlutunarrannsókn þar sem börn í 1. bekk fengu markvissa kennslu í frásagnaritun og voru síðan prófuð í bæði frásögnum og upplýsingatextum sýndi til dæmis að sú kennsla sem þau fengu í ritun frásagna gagnaðist þeim ekki mikið þegar kom að því að skrifa upplýsingatexta (Paris & Paris, 2007).

Í ritunarkennslu er því mikilvægt að hafa það í huga að börn þurfa að fá þjálfun í allskonar textaritun. Ritunarkennsla felst því ekki eingöngu í því að kenna umskráningu og stafsetningu heldur þurfa börn líka að læra um mismunandi textategundir og fá æfingu í að nota ritmál á fjölbreyttan hátt og skrifa allskonar texta

 

 

© Rannveig Oddsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer