Lestrarferli og þróun á sjónrænum orðaforða
Linnea C. Ehri hefur sett fram kenningu um það hvernig börn byggja upp sjónrænan orðaforða í lestri. En hvað felst í hugtakinu “sight word learning” að læra orð sjónrænt? Einhverjir myndu ef til vill segja að það tengdist kennsluaðferð í lestri, eða kannski því að æfa sig í að lesa stök orð hratt og fyrirhafnarlaust af ,,leifturspjöldum”. Ehri leggur hins vegar aðra merkingu í þetta. Hennar kenning gengur út frá því að “sjónrænt nám orða” (sight word learning) sé ferli sem allir lesarar þurfi að ganga í gegnum til að ná fullkomnum tökum á lestri. Kenning hennar útskýrir því mjög vel það ferli sem börn fara í gegnum á leið sinni til læsis. Ehri hefur líka skoðað hvað það er sem fer úrskeiðis í þessu ferli hjá nemendum með lestrarerfiðleika/dyslexíu.
Ehri leggur áherslu á að sjónrænn lestur sé skilvirkasta og árangursríkasta leiðin til að lesa texta og ná viðunandi lesskilningi. Sjónrænn lestur er að geta þekkt orðin hratt, sjálfvirkt og fyrirhafnarlaust. Lesturinn krefst ekki einbeitingar/athygli, heldur gerist hann ósjálfrátt. Ehri telur að sjónræna ferlið byggist á tengslamyndunarferlinu (connection-forming process). Tengslin myndast með því að tengja ritháttarmynd orðsins við framburð og merkingu. Lesari festir í minni tengsl milli sjónræns útlits orðsins, framburð þess og merkingu. Ehri segir þetta þó ekki nægilega forsendu eina og sér heldur þurfi lesandinn að hafa fullkomna þekkingu á tengslum stafs og hljóðs. Lesandinn þarf að vera fær um að sundurgreina orðin í stök hljóð. Hann þarf að geta sundurgreint málhljóðin í orðunum. Þannig þarf hann að geta greint eða skynjað að orðið sól er sett saman úr þremur hljóðum s-ó-l. Færni nemandans í hljóðkerfisvitund gerir honum kleift að skynja hljóð orðanna og vinna með þau í lestri og stafsetningu.
Fjórar aðferðir við að lesa orð
Það eru a.m.k. fjórar mismunandi aðferðir við að lesa orð, segir Ehri (1997, 164-165).
1. Með því að hljóða sig gegnum orðin, þ.e. gegnum hljóðræna umskráningu
(r-ó-s-i-r). Eða með því að lesa í orðbútum / lesbútum, þ.e. stærri einingum gegnum hljóðræna umskráningu (snú-ru-staur-inn).
2. Með því að endurheimta /kalla fram sjónræna mynd af orðunum úr langtímaminni. Það er lesa (þekkja) orðin beint sjónrænt.
3. Með því að bera saman við önnur lík orð sem nemandinn þekkir sjónrænt (sbr. sofa– lofa). Goswami (1986 og 1990) sýndi fram á að rím nýtist vel við þessa aðferð. Þessi aðferð krefst samt einhverrar færni við hljóðræna umskráningu, segir Ehri (1992).
4. Með því að giska á orðið út frá samhenginu. Þessi aðferð er mjög ónákvæm því erfitt er að giska á merkingarbærustu orðin í textanum, eða aðeins með 10% árangri.
Allar ofantaldar aðferðir krefjast einbeitingar og athygli, nema aðferð nr. 2, það er sjónræna leiðin. Ehri segir að þegar nemandi er fær um að kalla sjónræna mynd orðsins beint og án fyrirhafnar fram úr minninu geti lesandinn borið fram orðið og fundið merkingu þess sjálfvirkt (automatically) án þess að þurfa að beina athyglinni sérstaklega að því. Þetta gerirst ómeðvitað og ósjálfrátt. Sjónræna leiðin er því skilvirkasta og fyrirhafnarminnsta leiðin til að lesa orð í texta. Þetta bendir til að nemendur verði að ná tökum á sjónrænu leiðinni til að vera færir um að lesa orð fyrirhafnarlaust og af sjálfvirkni. Þetta þýðir samt ekki að lesarinn beiti ekki öðrum leiðum líka því sjónræna leiðin fær stuðning hinna aðferðanna jafnframt, en það fer eftir því hvernig nemandinn ber kennsl á framburð og merkingu orðanna hvaða leið hann velur helst. Sjónræna leiðin er hins vegar sú fyrirhafnarminnsta og hraðasta. Samkvæmt samvirknilíkaninu eru allar leiðir meira og minna virkar og styðja sjónrænu leiðina og fer það eftir eðli textans hvaða ferli eru virk hverju sinni. Þekking á tengslum stafs og hljóðs staðfestir að framburður orðsins passi við stafsetninguna á orðinu. Þekking á setningafræði staðfestir að orðið passi rétt inn í setninguna. Orðskilningur og minni á texta staðfestir að orðið passi inn í samhengi textans. Að hafa aðgang að slíkum margvíslegum upplýsingum hjálpar lesandanum að lesa af mjög mikilli nákvæmni og vera stöðugt vakandi og meðvitaður um hvort hann gerir villur í lestrinum sem gefur honum jafnframt forsendur til að leiðrétta þær.
Ehri lítur svo á að það að læra orð sjónrænt sé ferli sem allir byrjendur í lestri gangi í gegnum til að ná fullkomnum tökum á lestri. Með athugunum sínum skoðar Ehri hvað felst í sjónrænum orðalestri, hvernig hann þróast hjá venjulegum lesara. Þá veltir hún einnig fyrir sér hvort sjónrænn orðalestur þróist eðlilega hjá börnum með dyslexíu og hvað það er sem veldur því að þeir eiga í “sérstökum” erfiðleikum með að byggja upp sjónrænan orðaforða. Hún kemur inn á kennslufræðilega nálgun við að læra orð sjónrænt og hvernig hægt væri að meðhöndla erfiðleika sem upp geta komið þegar um dyslexíu er að ræða.
Þróunarstig lesturs (Phases of Development)
Ehri skiptir kenningu sinni um þróun á sjónrænum orðaforða í fjögur stig.
1. Undanfari bókstafsstigs. (Pre Alphabetic Phase). Myndastigið
2. Bókstafsstig að hluta (Partial Alphabetic Phase).
3. Fullkomið bókstafsstig (Full AlphabeticPhase).
4. Samtengt/heildrænt bókstafsstig (Consolidated Alphabetic Phase).
Við athugun á þróun sjónræns lesturs höfum við séð að ólík form tenginga svara til mismunandi þátta í þróuninni. (Ehri, 1991, 1994, 1995, 1999; Ehri & Mc Cormick, 1998). Sjónrænn lestur hefst án tenginga við bókstafina en eftir því sem lesandinn safnar fleiri þekktum orðum í minni og getur greint nákvæm tengslum stafs og hljóðs, festast ákveðin stafamynstur sem koma fyrir aftur og aftur í mismunandi orðum í minninu og verða að stikkorðum fyrir ákveðna orðhluta. Það að verða fær um að varðveita og aðgreina af fullkominni nákvæmni orðmyndir orðanna í minni gerir þroskuðum lesanda kleift að þekkja framburð og merkingu þúsunda orða nákvæmlega og ósjálfrátt við að sjá þau á prenti ( Ehri, 1995, 1980, 1984, 1987, 1992; Perfetti, 1992).
1. Undanfari bókstafsstigs (Pre- Alphabetic Phase) (Myndastigið)
Lestur án tengsla stafs og hljóðs
Á þessu stigi eru byrjendur í lestri og þeir þekkja orð sjónrænt með því að styðjast við og sjónrænar vísbendingar í umhverfinu og tengja við framburð orðanna og merkingu.
Þetta stig er kallað stig án bókstafa, eins konar “undanfari bókstafsstigs” oftast kallað myndstigið vegna þess að lesandinn er ekki farinn að nota bókstafina né tengja hljóð stafanna við rituð orð.
Lesendur á þessu stigi lesa algeng orð í umhverfinu eins og stopp merkið eða merki skyndibitastaða með því að muna táknin/myndirnar sem eru með á skiltunum frekar en að þeir muni sjálf orðin. T.d. gyllta bogann yfir Mc Donalds frekar en M-ið í nafninu. Talið er að á þessu stigi takst börnunum ekki að nota stafina til að festa orð í minninu þannig að þau geta ekki endurþekkt orðin út frá bókstöfunum heldur aðeins út frá vísbendingum í umhverfinu.
2. Bókstafsstig að hluta (Partial Alphabetic Phase)
Á þessu stigi muna byrjendur hvernig á að þekkja orð sjónrænt með því að tengja form sumra stafa í orðum við hljóð í framburði. Vegna þess að fyrstu og síðustu stafir í orðum eru sérstaklega áberandi eru það þeir sem börnin muna oftast eftir. Við höfum kallað þetta “hljóðmerkjalestur” (phonetic cue reading). Til að muna orð sjónrænt á þennan hátt verða lesendur sem þekkja hluta stafrófsins og að hafa einhverja þekkingu á tengslum stafs og hljóðs og kunna að hluta til að sundurgreina hljóð. Ástæðan fyrir því að tengingarnar eru að hluta til en ekki fullkomnar er að lesendur á þessu stigi vantar fulla þekkingu á stafrófinu, sérstaklega á sérhljóðum og þeir geta ekki tengt nema hluta málsins við fónem eða hljóð né parað það saman við runur bókstafa.
Góð þekking á lögmáli bókstafanna, tengslum stafs og hljóðs, auðveldar þá vinnu að forma og muna þýðingarmiklar tengingar milli ritaðs orðs og framburðar þeirra.
Ehri og Saltmarsh (1995) báru saman möguleika eldri lestrarhamlaða einstaklinga við nemendur í fyrsta bekk í að læra að lesa orð. Þeim var kennd einföld hljóðræn stöfun t.d. MESNGR fyrir messenger. Þeir sem voru leshamlaðir þurftu lengri þjálfun til að læra að lesa orðin heldur en venjulegu lesendurnir. Sem sagt samsvörunin við tímann við að lesa upprunalega og breyta stöfum orðanna gáfu til kynna að leshamlaðir hafa ófullkomnara minni til að muna orð heldur en venjulegir lesendur. Af þessu drögum við þá ályktun að leshamlaðir einstaklingar séu meðal þeirra sem nota hluta stafrófsins við lestrarnám.
3. Fullkomið bókstafsstig (Full Alphabetic Phase).
Á þessu stigi muna lesarar orð sjónrænt með því að mynda nákvæm tengsl milli stafs og hljóðs. Þetta er hægt vegna þess að lesarinn veit nú nákvæmlega hvaða hljóð hver einasti stafur í stafrófinu stendur fyrir/táknar (Venezky, 1970, 1999). Þess vegna getur lesandinn nú hlutað orðin niður í stök málhljóð. Rannsóknir hafa sýnt að það er hljóðræna ferlið sem gefur bestan árangur við að byggja upp sjónminni á orð.
Eitt einkenni sem skilur á milli bókstafsstigs að hluta og fullkomins bókstafsstigs er hæfileikinn til að umskrá orð (lesa sig í gegnum orð) sem lesarinn hefur aldrei lesið áður.
Rannsóknir sýna að barnið þarf að þekkja alla stafi orðsins til að geta fest það í sjónminni. Kostur sjónræns lesturs fram yfir umskráningu (umskráning = að hljóða sig í gegnum orðið) er sá að lestur verður nú hraður og sjálfvirkur.
Einn kosturinn við að þekkja orð sjónrænt er það að lestur verður nákvæmari. Þar sem þeir sem hljóða sig í gegnum orðin hafa takmarkað sjónrænt minni er meiri hætta á að þeir lesi vitlaust orð sem eru stöfuð svipað eins og “soon og spoon”. Þessi mismunur kom skýrt fram í rannsókn sem gerð var á lesendum á Full Alpabetic Phase” fullkomna bókstafs stiginu og hins vegar þeim sem eru á “ Partial Alpabetic Phase” eða bókstafsstig að hluta.(Ehri & Wilce, 1987b)
Til að rannsaka áhrif þess að hljóðgreina orð fullkomlega rétt framkvæmdu Ehri og Wilce (1987a) rannsókn sem var í því fógin að þau völdu börn sem voru á “bókstafsstiginu að hluta” og skiptu þeim í tvo hópa. Öðrum hópnum var kennt að lesa orð með því að tengja að fullu stafina í orðinu við hljóðin í orðinu. Hinum hópnum var kennt að tengja saman stafi og hljóð, en án þess þó að tengja það við lestur orðanna. Eftir þessa þjálfun fengu þau samskonar verkefni í að læra orð sjónrænt. Þau fengu margar tilraunir til að læra að lesa orð sem eru stöfuð svipað. Fyrrnefndi hópurinn sem kominn var á fullkomna bókstafsstigið gat öll orðin rétt á innan við þremur tilraunum á meðan að þeim í síðar nefnda hópnum tókst aðeins að lesa 40% orðanna eftir sjö tilraunir. Þar kom fram að þeir áttu í erfiðleikum með að þekkja orð sem hafa líka stafsetningu. Þessar niðurstöður sýna hversu mikilvægt það er að ná þeirri færni að geta lesið út frá nákvæmum tengslum stafs og hljóðs eins og gerist á fullkomna bókstafsstiginu.
Á fullkomna bókstafsstiginu ná lesendur tökum á tvenns konar tækni við að lesa orð. Þeir ná að umskrá orð og þeir ná líka tökum á því að greina orð sem þeir þekkja. Ehri og Robbins (1992) komust að því að lesendur á þessu stigi náðu að lesa orð rétt með því að greina orðin og skilja þau frá þeim sem þau þekktu fyrir þó að þau væru stafsett mjög líkt. Hins vegar gerðu lesendur á bókstafsstiginu að hluta þetta ekki. Þeir rugluðu saman nýjum orðum við þau sem þeir geymdu í minni ef þau voru stafsett líkt. T.d ef nýja orðið var “SAVE” þá rugluðu þeir því saman við “CAVE” sem þeir þekktu fyrir. Okkar tilgáta er sú að lesendur á bókstafsstiginu að hluta geymdu ekki stafsetningu orðanna nákvæmlega í minni sér og hættir þess vegna til að taka ekki eftir samlíkingu og mismunun á nýjum orðum og þekktum. Þessu er öfugt farið hjá lesendum á fullkomna bókstafsstiginu þeir geta geymt stafsetningu orðanna í minni sér og með því að geta þar að auki umskráð orðin ná þeir að greina orðin hvert frá öðru.
Rannsóknir hafa sýnt að börn með dyslexíu hafa veikleika í hljóðrænni umskráningarfærni og eru þess vegna lengi að mynda nákvæm tengsl milli stafs og hljóðs og byggja upp nákvæman, sjónrænan orðaforða. Forsenda þess að geta munað orð sjónrænt er að lesarinn verður að vita nákvæmlega hvaða stafir eru í orðinu eins og gerist á fullkomna bókstafsstiginu. Vegna hljóðrænna veikleika eiga nemendur með dyslexíu erfitt með að ná þessu stigi og það tekur þá þess vegna lengri tíma að þróa fyrirhafnarlausan, sjálfvirkan lestur. Nemendur með dyslexíu eiga oft erfitt með að vinna með tengsl stafs og hljóðs og lenda því í erfiðleikum með að ná þessu stigi í lesþróuninni fullkomlega. Það leiðir óhjákvæmilega til þess að næsta stig á eftir verður þeim líka erfitt.
4. Samtengt/heildrænt bókstafsstig (Consolidated Alphabetic Phase).
Þegar lesarinn er kominn á þetta stig er hann fær um að muna fjölda orða sjónrænt, því hann man nákvæmlega hvernig þau eru stafsett. Fleiri og fleiri orð festast í sjónrænu minni (sjónrænn orðaforði) og orðhlutar sem koma endurtekið fyrir í mismunandi orðum verða stöðugt kunnuglegri eftir því sem nemandinn sér orðin oftar (beygingarendingar, forskeyti, viðskeyti, rót orða). Lesarinn þekkir nú orð eða orðhluta sem heildir, hann les ekki staf fyrir staf heldur í stærri einingum, ber kennsl á orðin í heild og jafnvel hluta setningar (nokkur orð í röð). Þegar lesandi hefur náð þessu stigi er grunninum að sjálfvirkum, fyrirhafnarlausum sjónrænum lestri náð.
Eins og áður segir eru lesarar á “fullkomna bókstafsstiginu” færir um að umskrá orð gegnum nákvæm tengsl stafs og hljóðs og þeir geta nú þekkt orð sjónrænt með því að tengja saman stafi og hljóð af fullkominni nákvæmni. Þetta ferli opnar lesandanum aðgang að framburði atkvæða og undiratkvæða (subsyllabic) í mismunandi stafamynstri orða sem hefur smátt og smátt fest í sjónrænu minni lesandans gegnum nákvæman lestur út frá tengslum stafs og hljóðs. Stafamynstrin festast í sjónrænu minni gegnum tengsl stafa og hljóða. Samtengda stigið [stig 4] gerir lesendum kleift að fást við löng orð sem geta skipts í merkingabæra orðhluta (morphemes), atkvæði eða undiratkvæði til að mynda stuðlar (onset/ upphafshljóð) og rím (rime). Þetta stafamynstur verður hluti af vitneskju lesandans um ritmáls-kerfið.
Að læra að þekkja orð sjónrænt á sér stað á mörgum mismunandi stigum vegna áhrifa af bókstafa þekkingu (alphabetic knowledge). Á “undanfara bókstafsstiginu” eru ung börn (preschoolers) sem hafa litla þekkingu á bókstöfunum og geta ekki nýtt sér hana við sjónrænan lestur svo þetta stig hefur litla tengingu við þau stig sem á eftir koma. Aftur á móti eru bókstafsstigin þrjú- hluta, fullkomna og samtengda nátengd hvert öðru og spanna þróun allt frá grunnfærni til fullkominnar færni í sjónrænum lestri. Það sem einkennir bókstafsstigið að hluta eru byrjendur í lestri t.d leikskólabörn sem þekkja nöfn og hljóð margra stafa, en hafa ekki náð tökum á tengslum stafs og hljóðs, sérstaklega sérhljóðanna. Fyrstu bekkingar á fullkomna bókstafsstiginu hafa þessa þekkingu á tengslum stafs og hljóðs og geta nýtt sér hana til að lesa orð. Nemendur í öðrum bekk hafa hins vegar lært að þekkja stærri einingar orða og geta nýtt sér það við að lesa orð.
Aðferðir til að lesa óþekkt orð þróast líka út frá þessum stigum. Á fullkomna bókstafsstiginu geta lesendur notað umskráningaraðferð fullkomlega. Að sundurgreina ný orð í orðhluta og bera kennsl á þá er færni sem eykst mjög á samtengda stiginu og eflist eftir því sem sjónrænn orðaforði verður meiri.
Nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur eftir fyrsta bekk (annan bekk miðað við Ísland) og eru á eftir jafnöldrum sínum eiga venjulega í erfiðleikum með að muna nákvæmlega hvernig orðin eru stafsett þó að þeir þekki orðin þegar þeir sjá þau. (Ehri & Saltmarsh, 1995). Þeir eiga í erfiðleikum með að umskrá orð sem þeir þekkja ekki og þeir eru ekki eins góðir í að sundurgreina (analogizing) orð eins og þeir sem eru á réttu róli í lestrinum.
Við að meta gæði þeirrar stafsetingar sem byrjendur styðjast við til að stafsetja ný orð sjást mikilvægar greinandi upplýsingar varðandi þekkingu byrjenda á stafrófinu sem hægt er að miða við til að finna út á hvaða bókstafsstigi nemendur eru. Á undanfarastiginu krota börn eitthvað sem á að tákna ritmál. Þeir geta jafnvel skrifað einhverja stafi en það er ekki vegna þess að þeir þekkja hljóðið í orðinu heldur vegna þess að stafirnir tengjast þeim persónulega eins og fyrsti stafur í nafni barnsins.
Á bókstafsstiginu að hluta skrifa börn stafi sem eiga að tákna hljóð í orði en þau ná aðeins að táknsetja sum hljóð með stöfum. Nöfnin á stöfunum ráða miklu í þeirra vali og mynda grunn orðanna. Til dæmis: peeked gæti verið skrifað PT, buzz Bz og jail JL. Stafsetning þeirra er brotakennd frekar en að vera samfelld túlkun á hljóðunum í orðum vegna þess að þau eiga í erfiðleikum með að sundurgreina orð í stök hljóð (hljóðunga) eða atkvæði. Þetta orsakast af því að þau vita ekki hvernig á að tákna hljóð orða með bókstöfum, einkum sérhljóðanna.
Á fullkomna bókstafsstiginu ná börn að stafa orð með því að þekkja hljóðin í orðinu í réttri röð og láta stafina túlka þau samkvæmt orðanna hljóðan. Til dæmis gæti peeked verið skrifað PEKT, buzz BUZ og jail JAL. Þegar börnin hljóða sig í gegnum orðin koma þau stundum upp með aukahljóð eins og í orðinu blouses as BALAOSIS (Ehri, 1986). Börn skilja kerfi bókstafanna sem byggir upp og myndar stafina í orðunum. Þess vegna eru þau mun færari að muna rétta stafsetningu heldur en börn sem eru á ,,bókstafsstiginu að hluta”.
Á samtengda stiginu notfæra börn sér stafarunur eða stafsetningarmynstur (spelling patterns) ásamt stafa- og hljóðatengslum til þess að reyna að stafsetja orðin rétt. Til dæmis gæti orðið picking verið stafsett PIKING og peeked gæti verið orðið PEAKED .
Þróun lestrar og ritunar helst í hendur hjá börnum sem ekki eiga í erfiðleikum en slíkt gerist yfirleitt ekki hjá þeim sem eiga í erfiðleikum og eru komnir lengra en í fyrsta bekk. Guthrie (1973) rannsakaði nemendur í öðrum bekk sem voru á réttu róli og bar þá saman við eldri börn sem áttu í erfiðleikum, en sem höfðu sambærilega getu í lestri.
Hann lagði verkefni fyrir hvorn hópinn fyrir sig þar sem börnin áttu að tengja saman orð sem þau þekktu út frá lestri yfir í skrifað orð. Fylgnin á milli þessa var sterkari hjá normal lesurum (r=0,84, 0,91) heldur en hjá þeim sem áttu í erfiðleikum. Greenberg o.fl. (1997) komust að svipaðri niðurstöðu.
Nauðsynlegt er að byrjendur læri að þekkja alla bókstafina og hvernig bókstafirnir standa fyrir hljóðin í tungumálinu. Barnið verður að ná fullkomnum tökum á stafaþekkingu til að geta þekkt þá hratt og án umhugsunar og til að geta skrifað þá hiklaust eftir minni. Börn verða að læra tengsl stafa og hljóða og þetta verður að kenna þeim. Góð þekking á bókstöfunum er grundvallarskilyrði til þess að börn geti unnið með orð.
Byrjendur þurfa líka að takast á við hljóðgreininguna og verða meðvitaðir um að orð innhalda stök hljóð (hljóðunga) með ótalmörgum tilbrigðum. (Liberman o.fl. 1974). Eftir því sem þessi meðvitund þróast þarf hún að tengjast þekkingu á heitum bókstafanna og hvað þeir segja. Sigur hefur unnist þegar börn geta nokkurn vegin hljóðað og stafað orð sem þau hafa aldrei séð skrifað.
Kennarar verða fylgjast með framförum byrjenda hvað varðar þekkingu á bókstöfunum og færni í hljóðkerfisvitund. Í leikskóla og fyrsta bekk er mjög mikill munur á hverjum og einum nemanda hvað þetta varðar. Viðbótar- eða stuðningskennsla og einstaklingsmiðuð lestarkennsla er nauðsynleg hjá þeim nemendum sem koma inn í skólana án þessarar þekkingar.
Það getur verið mikilvægt að auka áhuga barna á að stafsetja ný orð og að uppgötva hvernig stafir tengjast hljóðum kerfisbundið. Þessi þáttur hefur verið settur inn í orðaþekkingar kerfi Benchmark´s ( Benchmark’s word detectives program) til að kenna hvernig þekkja megi hvert orð frá öðru. Nemendum er kennt að telja hljóðungana í orðum, síðan að horfa á stafsetninguna og fá bókstafina til að passa við hljóðungana með því að setja bókstafi í stafa- box þar sem hver stafur hefur eitt hólf til að tákna einn hljóðung. Einnig að kenna nemendum að stafa orð með því að greina og muna hvernig stafirnir standa fyrir hvert hljóð í orðinu. Þetta hjálpar þeim við að skilja tengsl hljóðs og stafs sem er nauðsynlegt til þess að geyma orð í minni sér.
Fyrsta skrefið í að bæta við nýjum orðum við þau sem við þekkjum sjónrænt er oft að umskrá þau (Share, 1995) eða lesa þau og tengja við lík orð. Það verður að kenna nemendum þessar tvær aðferðir til að lesa ókunn orð. Þessum aðferðum er auðveldara að ná þegar nemendur eru komnir á fullkomna bókstafsstigið og þeir byrjaðir að þekkja mörg orð sjónrænt þar sem stafsetning orðanna er algjörlega tengd framburði þess og þýðingu.
Í einni rannsókn skoðaði Bhattacharya (2001) fullorðna einstaklinga sem höfðu lestrargetu samsvarandi getu nemenda í þriðja til fimmta bekk. Hún kenndi þeim að telja atkvæði orða samkvæmt framburði og bera saman við rithátt 100 fjölatkvæða orða. Einn hópurinn æfði lestur sömu orða sem heild á meðan hinn hópurinn fékk enga leiðsögn. Þegar hóparnir voru prófaðir eftir á kom atkvæðishópurinn best út. Þetta bentir til að það sé mikilvægt að læra að greina orðin til að bæta lestrar og skriftarkunnáttu.
Það er á fyrstu árum skólagöngu sem kennarar geta haft úrslitaáhrif á það hvernig nemendum gengur að lesa og skrifa. Með því að hjálpa þeim að öðlast þá þekkingu á bókstöfunum sem nauðsynleg er til að geta lesið orð og líka að kenna þeim aðferðir við orðalestur sem þeir þurfa að kunna til að geta lesið sjónrænt.
AÐ BYGGJA UPP SJÓNRÆNAN ORÐAFORÐA
Þau fjögur stig sem hér hefur verið lýst sýna þá samvirku starfsemi sem á sér stað við að festa sjónrænan orðaforða í minni og hvernig hún þróast smám saman upp þróunarstigann. Lestrarkennslan þarf að miða að því að hjálpa nemandanum að ná tökum á fullkomna bókstafsstiginu, til að hann hafi möguleika á að ná samtengda stiginu (lokastiginu) og geti lesið hratt og sjálfvirkt í orðhlutum og heilum orðum. Skilvirkasta leiðin til að byggja upp sjónrænan orðaforða er gegnum hljóðaaðferðina (sbr. rannsókn Ehri og Shaltmarsh, 1995). Lesarinn festir orðin í sjónrænu langtímaminni gegnum framburð orðsins þ.e. gegnum hljóðræna minniskóðun. Með sjónrænum lestri eru orðin kölluð fram úr langtímaminni (þ.e. lesarinn hljóðar sig ekki lengur í gegnum orðin), en það er samt sem áður vitneskjan um tengsl stafs og hljóðs sem nær að kalla orðin fram úr minninu. Þetta ferli reynir því fremur á minnisferlið en umskráningarferlið. Lesarinn lærir að þekkja stafi og tengja þá framburði hljóða svo það er mjög mikilvægt að nemendur fái mjög vandaða kennslu í því ferli strax í upphafi lestrarnámsins til að hafa möguleika á að ná fullkomna bókstafsstiginu í sjónrænu námi sínu. Til að áframhaldandi þróun á sjónrænum orðaforða eigi sér stað verða lesarar að æfa/stunda lestur svo þeir sjái ritað form nýrra orða nógu oft til að þau bætist við í sjónrænt orðasafn þeirra. Ritun, það að skrifa markvisst er mjög öflug leið til að byggja upp sjónminni á orð, því þegar nemendur skrifa orðin verða þeir að sundurgreina öll hljóð orðanna, þ.e. skrifa staf fyrir staf. Því ætti lestrarkennslan að byggjast á markvissri ritun alveg frá upphafi, samhliða þjálfun í hljóðrænni umskráningu. ( Byggt á Linnea C. Ehri., 1997, 2002; Ehri o.fl. 2005).